flugfréttir

Viðtal: „Forgangsatriði að hafa tvo flugvelli á suðvesturhorninu“

- Jón Karl hjá Isavia segir rót flugvallarvandans vera ákvörðunarleysið

2. janúar 2017

|

Frétt skrifuð kl. 19:47

Jón Karl Ólafsson, framkvæmdarstjóra innanlandsflugvallarsviðs hjá Isavia

Deilur um framtíð innanlandsflugsins og umræður um hvort fara skuli út í framkvæmdir á nýjum flugvelli á suðvesturhorni landsins hafa verið mikið í deiglunni að undanförnu en umræður um Reykjavíkurflugvöll eru þó langt frá því að vera nýjar af nálinni þar sem framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni hefur oft skotið upp kollinum gegnum árin.

Í kjölfar viðskipta með hluta af landi í Vatnsmýrinni og dómsúrskurðar Hæstaréttar í júní 2016, sem skipaði innanríkisráðuneytinu að standa við samkomulag um sölu á landinu til Reykjavíkurborgar sem hafði undirbúið afhendingu þess til einkaaðila vegna framkvæmda, þá hefur málið tekið nýja stefnu og þá sérstaklega eftir að hinni svokölluðu „neyðarbraut“ var lokað endanlega í september.

Heitar umræður varðandi framtíð flugmála í höfuðborginni hafa átt sér stað sem hefur vakið upp margar spurningar og eru þeir margir sem velta því fyrir sér hver endanleg niðurstaða verður fyrir innanlandsflugið á suðvesturhorninu.

Bombardier-vélar Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli þann 29. desember sl.

Lokun 06/24 brautarinnar hefur valdið mikilli reiði bæði meðal flugmanna og fólks í samfélaginu sem segir að glapræði sé að loka flugbraut sem nú þegar er farin að hafa áhrif á sjúkraflug og það þrisvar sinnum í desember og þá sérstaklega með tilliti til þess að þrír erfiðustu mánuðir ársins eru eftir er kemur að veðurfari.

Alltumflug.is ræddi við Jón Karl Ólafsson, framkvæmdarstjóra innanlandsflugvallarsviðs hjá Isavia, sem segir að staðan sé mjög erfið þar sem skortur er á því að menn séu að vinna í því að finna varanlega lausn í flugvallarvandanum með því að horfa á málið í heild sinni.

Flugvallarmálið hefur aldrei verið tekið föstum tökum

„Einn versti óvinur þessarar umræðu er sú að menn hafa ekki getað rætt þetta út frá málefnalegri nálgun. Umræðan um Reykjavíkurflugvöll hefur verið meira og minna í gangi í 30 til 40 ár og menn hafa verið í rifrildi um völlinn frá því elstu menn muna. Skipulagsumhverfi vallarins hefur setið á hakanum og menn hafa ekki náð að byggja upp eðlilegan borgarflugvöll sem gæti verið miklu meiri sátt um heldur er en núna“, segir Jón Karl.

Jón Karl segir að út frá sjónarmiði flugvallarrekanda, sem í þessu tilfelli er Isavia, sé lítið vandamál að reka flugvöll í Hvassahrauni eða hvar sem er. En það sem gerir stöðuna erfiða sé þegar verið er að flækja umræðuna með því að blanda í hana ýmsum atriðum sem verður til þess að niðurstaðan verður engin í stað þess að taka ákvörðun og mynda sér skoðun.

Jón Karl segir að stefnuleysið í flugvallarmálinu komi sér einnig
mjög illa fyrir Isavia eins og aðra sem koma að flugrekstri

Jón Karl segir það einnig rugla umræðuna þegar talað er um að reglugerðir hafi verið brotnar með því að loka flugbraut á Reykjavíkurflugvelli og segir að með nýtingarstuðul fyrir flugvelli sé átt við viðmiðunarútreikninga sem varðar rekstarhæfni fyrir flugfélög og flugrekendur og sé ekki því um reglugerð að ræða sem segir að ekki sé hægt að nota viðkomandi flugvöll.

„Nýtingarmöguleikar á flugvelli eru meiri því fleiri flugbrautir sem hann hefur. Það væri sennilega betra að vera með sex flugbrautir á Reykjavíkurflugvelli ef farið er út í slík atriði en það er ekki þannig að það hafi neinn verið að brjóta reglugerðir þótt menn hafi komist að samkomulagi um að loka einni flugbraut“, segir Jón Karl sem tekur fram að það er ákvörðun flugrekanda hvort að flogið er um völlinn með tilliti til veðurskilyrða hverju sinni.

Aðspurður um hvort Isavia hafi uppi áætlun um það ferli sem myndi fara í gang við að færa flugvallarstarfsemi yfir í Hvassahraun og hver kostnaðurinn væri ef út í það er farið nefnir Jón Karl að 30 til 40 milljarðar sé mjög vanáætluð tala fyrir nýjan flugvöll og séu 100 milljarðar raunhæfari tala.

Kostnaður við nýjar flugbrautir yrði sennilega nær 50 milljörðum og þá er ótalin kostnaður vegna annarra bygginga, eins og flugstöð, eldsneytiskerfis og aðstöðu fyrir aðra starfsemi flugvallar, sem kallar á fjárfestingar. - „Í flestum tilfellum þegar ákvarðanir eru teknar um að flytja flugstarfsemi frá einum flugvelli á annan, þá er fyrst byggður ný flugvöllur áður en eldri flugvelli er lokað“, segir Jón Karl.

Flugvél Ernis í flugtaki á braut 19 á Reykjavíkurflugvelli í gær

„Isavia hefur í sjálfu sér ekkert á móti rekstri flugvallar t.d. í Hvassahrauni ef veðuraðstæður eru taldar góðar og öllum öryggiskröfum verðu mætt. Það þýðir hins vegar ekkert að flytja starfsemi á nýjan flugvöll, fyrr en hann verður tilbúinn og klár“.

Ekki nóg að hafa einn flugvöll á suðvesturhorninu

Aðspurður út í nálægð flugvallar í Hvassahrauni við Keflavíkurflugvöll svarar Jón Karl að best sé að svara því með spurningunni „Er nóg að hafa einn flugvöll á suðvesturhorni Íslands þar sem menn hafa rætt um þann möguleika að loka Reykjavíkurflugvelli og flytja allt til Keflavíkur“.

„Þá yrði Keflavíkurflugvöllur eini flugvöllurinn á suðvesturhorninu og aðrir millilandaflugvellir yrðu bara Akureyri og Egilsstaðir. Mitt svar við því væri „nei“ og ef þú horfir til nágrannaþjóða þá yrði þetta ekki liðið. Ef þú skoðar Stokkhólm, Kaupmannahöfn og Osló þá eru aldrei meira en 50 - 100 kílómetrar í næsta flugvöll frá stærstu flugvöllunum í þessum borgum“, segir Jón Karl.

Þess má geta að frá flugvellinum í Kaupmannahöfn til Sturup-flugvallarins í Malmö eru 46 kílómetrar, 31 kílómeter eru frá Arlanda-flugvellinum til Bromma-flugvallarins í Stokkhólmi og 119 kílómetrar eru frá Gardermoen í Osló til næsta flugvallar sem er Torp-flugvöllurinn í Sandefjord.

Á meðan eru 282 kílómetrar frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar, 415 kílómetrar til Egilsstaða en næsti varaflugvöllur þar á eftir er í Glasgow sem er í 1.351 kílómetra fjarlægð.

„Við hljótum að telja það forgangsatriði að vera með tvo flugvelli hér á suðvesturhorni landsins. Ef við ætlum að hafa þá tvo þá hefði ég haldið að það væri betra að hafa þá þannig að þeir styðji hvern annan og þá finnst mér að það þurfi að skoða vel bæði veðurfarslega og landfræðilega legu og þá útfrá því, að þessir flugvellir eru hugsanlega of nálægt hvor um öðrum“

„Ef hlutverk varaflugvallar er tekið inn í myndina þá myndi ég halda að Hvassahraun virki ekki eins vel fyrir Keflavíkurflugvöll eins og Reykjavíkurflugvöllur virkar, en slíkt þarf að sjálfsögðu að rannsaka“, segir Jón Karl.

Hvað með uppbygginguna í Keflavík?

Jón Karl segir að um leið og farið er að tala um nýjan flugvöll í Hvassahrauni þá séu menn farnir að tala um að þar eigi að byggja nýjan alþjóðaflugvöll en slík fjárfesting yrði enn dýrari og yrði það ekki í samræmi við þá stefnu sem er í gangi við uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli.

Jón segir það ekki einfalt mál að vera með fjárfesta sem koma að uppbyggingunni á Keflavíkurflugvelli á sama tíma og menn tali um nýjan flugvöll í Hvassahrauni sem lætur lánveitendur spyrja sig þeirra spurninga: „Hvort ætlið þið að gera?“.

Margir aðilar innan flugsins telja að miklar líkur séu á því að flugkennsla flytjist úr landi verði Reykjavíkurflugvelli lokað þar sem umferð um Keflavíkurflugvöll eykst dag frá degi

Jón Karl segir að öll umræðan um flugvallarmálin byrji alltaf á öfugum enda og fari menn að spyrja sig t.a.m. hvað verði þá um kennsluflug og aðra starfsemi á Reykjavíkurflugvelli en á sama tíma þá sé ekki verið að taka neina ákvörðun um heildarmyndina til framtíðar í flugvallarstefnu á Íslandi.

Umræða um innanlandsflugið á villigötum

Jón Karl segir að umræða um Reykjavíkurflugvöll sé einnig farin að skapa neikvæða ímynd um tilveru innanlandsflugsins og fari margir að spyrja sig að því hvort flugsamgöngur innanlands séu ekki hvort sem er allar að leggjast niður.

Flugstöð innanlandsflugsins

„Í mínum augum er innanlandsflugið fyrst og fremst almenningssamgöngukerfi og í raun okkar „hraðlestarkerfi“. Við ætlum væntanlega ekki að fara byggja hraðlestir til helstu landshluta, sem kostar sennilega einhverja „skrilljarða“ að framkvæma“

„En við erum með mjög góðar og öruggar samgönguleiðir milli staða sem er flugið og í flestum þjóðum eru menn að hvetja til þess að flugsamgöngur séu virkar og öflugri í stað þess að verið sé að ræða að draga þær saman“, segir Jón Karl.

Ein versta staða sem hægt er að hafa

Jón Karl segir að staðan í flugvallarmálum núna sé eins slæm og hægt er að hafa hana bæði fyrir flugrekendur og fyrir Isavia sem flugvallarrekanda þar sem engar áætlanir eru í gangi varðandi hvað skal gera á næstu árum á sama tíma og mjög mikilvægt er að hafa einhverja framtíðarstefnu til staðar.

„Það vantar sárlega skýra stefnu í innanlandsflugsmálum hér á landi og það er nær að segja, að það er varla samkomulag um hvað eigi að gerast á morgun. Þetta er mjög vond staða í flugvallarrekstri líkt og í öllum öðrum fyrirtækjarekstri. Það skiptir í raun ekki máli hvort verið er að reka flugvöll eða að selja klósettpappír“.

Reykjavíkurvöllur hefur verið nauðsynlegur fyrir íslensku flugfélögunum sem vararflugvöllur

„Ef framtíðarsýn er ekki til staðar erum við í vanda. Isavia rekur innanlandsflugvelli í gegnum þjónustusamning við ríkið. Þessir samningar hafa aðeins verið til eins árs í senn. Við höfum verið að benda ríkinu á að þetta er slæmt fyrir þá líka því framtíðarsýnin verður mjög takmörkuð og ákvarðanir byggja oft á skammtímalausnum“.

Jón Karl segir að mjög nauðsynlegt sé að gerð sé langtímaáætlun varðandi flugvallarmál og þá sérstaklega með tilliti til legu Íslands úr frá veðurfræðilegum sjónarmiðum þegar upp koma aðstæður þar sem vélar þurfa annan flugvöll til að lenda á og sé mikill sparnaður fólgin í því að þurfa ekki að reiða sig á varaflugvelli erlendis.

British Aerospace Jetstream flugvél Ernis

„Það sem truflar mig aðeins í þessari umræðu með Hvassahraun og mælingar varðandi skilyrði á þeim stað, er að á meðan verði engin málefnaleg umræða um framtíð Reykjavíkurflugvallar og engin ákvörðun verður tekin á meðan. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það svolítið galið að ætla að byggja annan flugvöll og loka öðrum fullkomnum og góðum flugvelli á þeim forsendum að landið undir vellinum sé svo verðmætt, en hér erum við aftur komnir í pólitík“

Sjúkraflug og neyðarbrautin afleiðing stefnuleysis

Heitar umræður fóru af stað örfáum dögum fyrir jól er Reykjavíkurflugvöllur var ekki nothæfur vegna veðurs þar sem neyðarbrautin var eina brautin sem hefði geta tekið við sjúkraflugi í neyðartilfellum.

Jón Karl segir að miklar umræður fari ætíð í gang þegar kemur að sjúkrafluginu þar sem mikið er deilt og netheimar loga en Jón segir að sem betur fer hafi ekki verið neitt sjúkraflug á þeim tímapunkti þar sem brautin var eini kosturinn.

Athugið:  [Þess má geta að viðtalið var tekið áður en aðstæður komu upp þann 28. október þar sem sjúkraflugvél frá Mýflugi neyddist til að fljúga með sjúkling til Akureyrar þar sem ekki var hægt að lenda í Reykjavík]

King Air sjúkraflugvél Mýflugs í lendingu á braut 19 í gær

„Stóra spurningin hlýtur að vera sú hvort það eigi eftir að koma upp aðstæður þar sem nauðsynlegt verður að flytja bráðveikan aðila sem hefur enga aðra valkosti og eina úrræðið sé að komast til Reykjavíkur á sama tíma og það er hvöss suðvestanátt. Þá er alveg öruggt að málið er orðið alvarlegt“.

„Eins og staðan var í gær (20. desember) þá var þetta alvarlegt á þeim forsendum að ef þetta hefði komið upp þá hefði þetta ekki verið hægt. En sem betur fer kom það ekki upp. Umræðan verður oft mjög tilfinningaleg og ég skil það og ætla ekki að draga neitt úr því. Það verður þó að segjast, að þessi umræða ruglar oft málaefnalega umræðu um framtíðarskipulag flugvallarins og varanlega niðurstöðu og lausn sem hægt er að vinna með í samkomulagi aðila“

Ólíklegt að neyðarbrautin verði opnuð aftur

Jón Karl segir að það sé ekki neitt sem lokar 06/24 brautinni í dag nema það að hún sé ekki rudd en vandamálið að hans sögn sé hinsvegar það að búið er að gefa leyfi fyrir að reisa byggingarkrana í beina fluglínu inn á brautina en lokun á brautinni var hluti af samkomulagi milli ríkisins og borgarinnar vegna framkvæmda í landi Hlíðarenda.

„Þessi braut er malbikuð og yfirlag hennar í fínu lagi og ekkert sem hindrar það að opna hana nema að hún er lokuð samkvæmt tilskipun frá eiganda vallarins. Þá gerir nýtt deiluskipulag Reykjavíkurborgar ráð fyrir framkvæmdum á íbúðum við suðurenda brautinnar á næsta ári og þá verður þetta búið“.

Vindpokinn við hina svokölluðu neyðarbraut í gær

„Það hefur síðan verið rætt, að opna aftur sambærilega braut með sömu stefnu í Keflavík með því að fara út í ódýrari framkvæmdir og gera hana að neyðarbraut fyrir sjúkraflugvélar og aðrar innanlandsflugvélar“

„Þessi tillaga hefur verið lögð fyrir ráðuneytið, en endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir. En við sjáum fram á að fyrir um 200 milljónir þá væri hægt að endurnýja yfirlagið á hluta brautarinnar þannig hún myndi þá nýtast fyrir minni flugvélar“, segir Jón Karl.

Jón Karl segir að lokum að það verði að byrja á því að ræða málin út frá þeim forsendum að finna og ákveða lausnina fyrst og svo væru önnur atriði tekin fyrir sem fylgja í kjölfarið sem væri þá sjúkraflug, innanlandsflug eða flugkennsla.

„Á að færa starfsemina? Það er í sjálfu sér tæknilega ekkert sem mælir gegn því og fólk getur haft ýmsar skoðanir og persónulegt álit varðandi afstöðu til þess, kostnað og fleira. En á meðan að niðurstaðan liggur ekki fyrir hvort eigi að gera þá verðum við áfram í vondum málum og höldum áfram að deila um þessi mál, án þess þó að komast að neinni niðurstöðu“, segir Jón Karl.







  fréttir af handahófi

  Nýjustu flugfréttirnar

Icelandair staðfestir pöntun í allt að 25 Airbus A321XLR þotur

6. júlí 2023

|

Icelandair hefur staðfest pöntun í allt að 25 Airbus A321XLR þotur en um er að ræða staðfestingu á samkomulagi er flugfélagið gerði í apríl í vor við Airbus.

Hefja rannsókn á endurfjármögnun SAS í kóvidinu

5. júlí 2023

|

Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins ætlar að hefja rannsókn á þeirri endurfjármögnun sem sænska og danska ríkið gerði á rekstri SAS í heimsfaraldrinum og skoða hvort að öllum reglugerðum og lögum ha

Tólf slösuðust um borð eftir mikla ókyrrð

4. júlí 2023

|

Að minnsta kosti 12 manns slösuðust í mikilli ókyrrð um borð í breiðþotu frá Hawaiian Airlines sl. föstudag er þotan var á leið frá Hawaii til Ástralíu.

Air Atlanta Europe leigir tvær 777-300ER til Saudia

4. júlí 2023

|

Air Atlanta Europe tók nýlega í notkun tvær Boeing 777-300ER breiðþotur sem fyrirtækið hefur áframleigt til Saudia.

Þota frá Delta lenti með nefhjólið uppi í Charlotte

28. júní 2023

|

Farþegaþota frá Delta Air Lines lenti án nefhjóls á Charlotte/Douglas í Norður-Karólínu í dag.

Airbus gerir samning um þróun á eldsneyti úr etanóli

28. júní 2023

|

Airbus hefur hafið samstarf við fyrirtækið LanzaJet um að hraða þróun og vottun á sjálfbæru eldsneyti sem vonast er til þess að geti leyst af hólmi þörf fyrir hefðbundið þotueldsneyti á næstu árum.

Skortur á flugumferðarstjórum vestanhafs veldur áhyggjum

28. júní 2023

|

Eftirlitsmaður samgönguráðuneytis Bandaríkjanna hefur gefið út skýrslu þar sem fram kemur að skortur á flugumferðarstjórum á vegum bandarískra flugmálayfirvalda (FAA) sé áhyggjuefni sem þarf að taka

Pólsk farþegaþota flaug óvart inn í úkraínska lofthelgi

26. júní 2023

|

Pólsk farþegaþota frá flugfélaginu Enter Air fór óvart inn í úkraínska lofthelgi um helgina þegar flugmenn vélarinnar voru að sneiða hjá þrumuveðri.

Vinna að því að stytta biðtíma fyrir vottanir og skráningar

23. júní 2023

|

Bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) ætla sér að stytta biðtíma eftir skráningum flugvéla og útgáfu vottanna með því að einfalda ferlið og ná með því niður þeirri bið sem viðgengist hefur.

Fækka fraktþotum enn frekar vegna dvínandi eftirspurnar

23. júní 2023

|

Vöruflutningarisinn FexEx ætlar að kyrrsetja enn fleiri fraktflugvélar sökum tapreksturs auk þess sem rekstrartekjur fyrirtækisins hafa dregist töluvert saman auk þess sem að eftirspurn eftir fraktf

 síðustu atvik

  2023-01-17 12:00:00

  • 1 JAN

    United

      - Hjólabúnaður

  • 1 JÚL

    Tajik Air

      - Þrýstingsjöfnun

  • 1 JAN

    SWISS

      - Veðurratsjá

  vinsælast síðustu 7 daga