flugfréttir

12 góð ráð og atriði fyrir þá sem stefna á flugnám

- Það sem gæti komið þér á óvart þegar þú byrjar að læra að fljúga

3. september 2017

|

Frétt skrifuð kl. 16:58

Að fljúga er fyrir flesta það skemmtilegasta sem þeir hafa stundað nám í

Sjaldan hafa eins margir farið í flugnám og raunin er um þessar mundir enda er mikil þörf fyrir nýja flugmenn bæði hér á landi sem og erlendis.

Það eru án efa margir þarna úti sem eru að spá í að skrá sig í flugnám og mun stór hópur þeirra stíga sín fyrstu skref í fluginu á næstu misserum ef þeir gera upp hug sinn.

Flugnám getur verið stór skuldbinding bæði þegar kemur að peningamálum og aðstæðum hvers og eins en yfir helmingur þeirra sem fara í flugnám hafa það að markmiði að fara í atvinnuflugið - eða eins og kallað er stundum „að fara alla leið“.

Eins og með margt annað þegar kemur að því að hefja nýjan feril og læra eitthvað nýtt þá er erfitt að vita hvað maður er að fara út í nema hreinlega bara byrja en flestir flugskólar bjóða upp á kynningarflug til að fá tilfinninguna fyrir því að fljúga sem oft kveikir í bakteríunni strax.

En við hverju má búast?

Sumir hafa gert sér ákveðna hluti í hugarlund áður en þeir byrja að læra að fljúga og komast að því að sumt er öðruvísi en þeir áttu von á enda er flugið spennandi heimur sem krefst aga, reglusemi og eiginleika sem nauðsynlegt er að tileinka sér í umhverfi þar sem öryggið er ávalt númer 1, 2 og 3.

Hér koma 11 atriði sem gætu komið þér á óvart þegar þú byrjar í flugnámi og nokkur góð ráð sem gott er að tileinka sér.

1

Flugtímum aflýst vegna veðurs


Þú munt án efa upplifa það að fella þarf niður flugtíma og oftast er það vegna veðurs og það á einnig við á sumrin.

Sólin skín ekki eins mikið á Íslandi og í Flórída og íslenskt veðurfar er eins og við þekkjum það best enda búum við á eyju sem er lengst norður í hafi þar sem lægðir ganga reglulega yfir.

Þótt það virðist vera ágætis sólbaðsveður á að horfa út um gluggann þá geta verið slæm skilyrði fyrir flug annað hvort yfir flugvellinum eða á því æfingarsvæði sem notað er til flugæfinga.

Það þarf að vera viss skýjahæð og lágmarksskyggni svo hægt sé að kenna einkaflug sem kennt er í sjónflugi og þú gætir lent í því að aflýsa þarf mörgum flugtímum í röð vegna þessa.

Hvassviðri, þoka yfir flugvellinum eða miklar annir hjá flugkennara getur einnig haft áhrif á verklegu kennsluna en yfirleitt er þetta ekki það slæmt að það komi í veg fyrir að þú útskrifist sem einkaflugmaður á endanum á meðan á námi stendur.





2

Þú þarft ekki að vera milljónamæringur til þess að fara í flugnám


Þú þarft ekki að vera milljónamæringur til þess að fara í flugnám og þú ert ekki að fara staðgreiða einhverjar milljónir daginn sem þú skráir þig í námið.

Einkaflugnám kostar kringum 1.5 milljón króna þegar upp er staðið en 85% af þeim kostnaði eru flugtímarnir sem oftast eru rukkaðir mánaðarlega („pay as you fly“).

Ef einn mánuðurinn er verri fjárhagslega þá geturu flogið minna þann mánuð og flogið meira þann næsta. Reiknaðu út hvað flugtíminn kostar með kennara og finndu út hvaða pening þú hefur milli handanna í hvert skipti.



3

Sofðu vel og ekki fljúga á tóman maga


Það mun kannski koma þér á óvart að það er mjög nauðsynlegt að mæta vel fyrir kallaður í flugtíma, vel sofinn og ekki með tóman maga.

Þótt þú sért ekki vel úthvíldur þegar þú mætir í bóklegu tímana þá viltu frekar vera í góðu flugformi fyrir verklegu tímanna þar sem þú þarft að halda einbeitingu og vera með hugsunina í lagi.

Finndu út hvað hentar þér. Öll líkamleg hreyfing eykur þolið sem gerir þig færari og skerpir hugsunina um borð.

Þótt þú klúðrir einhverju á meðan á tímanum stóð þá er flugkennarinn alltaf með þér en það er fyrst og fremst leiðinlegt fyrir þig að hafa ekki staðið þig betur t.d. vegna svefnleysis.





4

Ósiðir í byrjun flugkennslu


Það eru nokkur atriði sem þú gætir átt tilhneigingu með að gera eða ekki gert þegar þú byrjar að fljúga en margir kannast við er þeir lærðu að keyra að ökukennarinn sagði þér reglulega að hafa báðar hendur á stýri.

Algeng atriði hjá flugnemum er að hafa ekki hendina á eldsneytisinngjöfinni, hafa fæturnar ekki á petulunum, standa of mikið á bremsunum og trimma ekki vélina reglulega og halda því föstum greipum um stýrið.

Þú gætir átt von á því að heyra flugkennarann segja reglulega „kúluna í miðjunni“ og ef kennarinn hefur aldrei sagt „hægri rudder“ þá þýðir það að þú ert ekki byrjaður að læra að fljúga.





5

Mikilvægi þess að nýta hvern flugtíma vel


Hver flugtími er dýr bæði upp á peninga og tíma. Þess vegna er nauðsynlegt að nýta hann vel og læra hvað þú gerðir rangt eða gerðir ekki nógu vel.

Flugkennarinn mun segja þér hvernig þér tókst til og hvernig þú hefðir frekar átt að gera hitt og þetta. Ekki hika við að spyrja og reyndu að ná betri tökum á því næst. Hann á án efa einnig eftir að hæla þér fyrir það sem þú stóðst þig vel í.

Best er að notast við kennsluefni og kennslustaðlana frá skólanum og svo er Youtube einnig heill hafsjór að fróðleik með myndböndum sem geta komið sér vel.





6

Ókyrrð er eitthvað sem venst fljótt


Þótt þú sért ekki flughræddur/flughrædd þá eru sumir sem eru smeikir við að setjast upp í litlar flugvélar ef þeir eru ekki vanir þeim og kennsluflugvélar eru frekar litlar og smágerðar.

Þú munt upplifa smá ókyrrð reglulega í flugkennslunni þar sem vindurinn eða hitauppstreymi frá jörðu mun ýta þér smá til og frá og hreyfa vélina pínu til hliðar og upp og niður.

Þetta eru samt mjög litlar hreyfingar sem kalla fram smá fiðring í magann fyrst um sinn en það venst fljótt. Eftir nokkra flugtíma munt þú hætta að kippa þér upp við það og mögulega bara hafa gaman af smá ókyrrð á köflum.





7

Flight Simulator er mjög frábrugðið því að fljúga í alvörunni


Ef þú hefur verið mikið að leika þér að því að fljúga í flughermisleikjum á borð við Flight Simulator frá Microsoft eða X-Plane þá á það eftir að koma þér á óvart að fljúga í alvörunni er mjög frábrugðið og stundum ekki einu sinni hægt að bera það saman.

Þú ert auðvitað betur að þér í að þekkja mælana og stjórnborðið í flugvélinni en það er ekki sama tilfinningin að fljúga í rólegheitunum við skrifborðið heima nema skrifborðsstóllinn sé á tjökkum og getur líkt eftir þyngdarhröðun (G-force) og þeim öflum sem virka á flugvél á flugi.

Mörg atriði geta auðveldað þér verklega flugnámið en í heildina litið er um mjög ólíka hluti að ræða.

Að mörgu leyti munt þú samt sem áður tengja saman aðgerðir, fylgjast með mælum og líkja eftir hreyfingum flugvélar eftir þá reynslu sem þú hefur í flughermi í tölvunni sem á eftir að koma að góðum notum en upplifunin er alls ekki sú sama þar sem þú ert að glíma við alvöru öfl við raunverulegar aðstæður í fluginu.





8

Þú ert ekki bara að fljúga „eitthvað“ í flugtímunum


Í hverjum flugtíma er tekin ákveðin tegund af flugi fyrir og aðgerðir sem kallast flugæfingar. Það er nauðsynlegt að ná tökum á þessum atriðum og það sem gæti komið þér á óvart er að það er smá kúnst að samhæfa sum atriði sem virðast einföld í fyrstu sýn eins og samspil milli flughraða og flughæðar.





9

Lestu heima og þér gengur betur í bóklegu kennslunni


Bóklegt einkaflugmannsnám tekur um það bil tvo mánuði. Kennslan fer frekar hratt fram og þessi tími er fljótur að líða og áður en þú veist er námskeiðið búið og komið að prófum.

Það er mikið af upplýsingum sem verður troðið í hausinn á þér á skömmum tíma og margt sem þú þarft að muna, læra og skilja varðandi flugvélar og allt sem viðkemur fluginu.

Alls eru kennd 9 fög fyrir einkaflugmann og það er gott að halda vel á spöðunum, glósa vel og læra alltaf eitthvað á hverjum degi ef tími gefst.

Þú munt bæði taka lokapróf hjá flugskólanum og einnig hjá Samgöngustofu og það er ekkert óeðlilegt við að falla í einhverju fagi - Þú færð að taka aftur próf í þeim fögum.

Vertu skipulagður, farðu vel í að læra það sem þér gengur erfiðlega að skilja, farðu vel yfir glósurnar og legðu á minnið reglulega þau atriði sem þarf að muna.





10

Undirbúðu þig fyrir hvern flugtíma


Það getur breytt miklu að undirbúa sig daginn fyrir flugtímann með því að fara yfir þær æfingar sem á að æfa.

Bæði er gott að fara yfir kennslustaðla og skoða hvernig æfingarnar eru framkvæmdar en á Youtube má finna mörg myndbönd yfir hvernig æfingar eru gerðar t.d. með því að leita eftir „stall recovery“ eða „slow flight“

Mundu samt að fara alltaf eftir þeim kennslustöðlum sem flugskólinn þinn gefur út því verklegi hlutinn er kenndur eftir því og ætlast er til að nemandinn miði við það.

Farðu yfir kennslustaðla, legðu á minnið mælieiningar við útreikninga á eldsneyti (t.d. gallon í pund), legðu á minnið mismunandi hraða og reglur í umferðarhring og skoðaðu upplýsingar sem spara þér tíma þegar þú byrjar að undirbúa flugtímann.





11

Tileinkaðu þér góða flugmennsku og vönduð vinnubrögð


Agi og nákvæm vinnubrögð mun auðvelda þér flugnámið og það er alltaf nauðsynlegt og jákvætt að öllu leyti að tileinka sér góða flugmennsku frá upphafi.

Öryggið í fluginu er mjög mikið þar sem verið er að ferðast um háloftin sem er mjög frábrugðið því að ferðast um í bíl þar sem hægt er að stöðva bílinn út í vegkanti ef eitthvað kemur upp á sem dæmi.

Til að framfylgja öryggi í flugi þá er góð flugmennska lykillinn að þeim árangri og einnig til að tryggja að allt sé gert samkvæmt bókinni þegar flogið er og til að standa klár á öllum þeim aðgerðum sem þú gerir við stjórnvölin.





12

Mundu að þú ert að byrja nýjan feril - þetta kemur allt


Mundu að þú ert að byrja alveg nýjan feril og taka fyrstu skrefin inn í mjög spennandi heim flugsins og hvernig þér mun ganga er alveg undir þér komið að mestu leyti.

Það þarf að halda vel á spöðunum til að ná markvissum árangri en það þarf ekki beinlínis kraftaverk til að láta drauminn rætast - aðeins áhuga og ástríðu á flugi. - Mundu að hjá mörgum kom brennandi áhugi strax eftir fyrsta flugtímann.

Þótt þér finnist þú vera óheppin(n) með veður fyrst um sinn eða að skortur á flugkennurum eigi eftir að láta á sér kræla þá er það undir þér komið hvort þú komist alla leið svo lengi sem heilsan er í lagi.

Fyrir utan bóklegt flugnám þá er verklegi hlutinn ekkert nema æfing sem kemur með tímanum og áður en þú veist af þá sérðu fyrir endanum á einkaflugmannsnáminu og þá kemuru að þeim tímapunkti þar sem þú ákveður hvort þú viljir halda áfram og fara í atvinnuflugið og gera flugið að atvinnu eða áhugamáli - eða bæði.







  fréttir af handahófi

  Nýjustu flugfréttirnar

Icelandair staðfestir pöntun í allt að 25 Airbus A321XLR þotur

6. júlí 2023

|

Icelandair hefur staðfest pöntun í allt að 25 Airbus A321XLR þotur en um er að ræða staðfestingu á samkomulagi er flugfélagið gerði í apríl í vor við Airbus.

Hefja rannsókn á endurfjármögnun SAS í kóvidinu

5. júlí 2023

|

Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins ætlar að hefja rannsókn á þeirri endurfjármögnun sem sænska og danska ríkið gerði á rekstri SAS í heimsfaraldrinum og skoða hvort að öllum reglugerðum og lögum ha

Tólf slösuðust um borð eftir mikla ókyrrð

4. júlí 2023

|

Að minnsta kosti 12 manns slösuðust í mikilli ókyrrð um borð í breiðþotu frá Hawaiian Airlines sl. föstudag er þotan var á leið frá Hawaii til Ástralíu.

Air Atlanta Europe leigir tvær 777-300ER til Saudia

4. júlí 2023

|

Air Atlanta Europe tók nýlega í notkun tvær Boeing 777-300ER breiðþotur sem fyrirtækið hefur áframleigt til Saudia.

Þota frá Delta lenti með nefhjólið uppi í Charlotte

28. júní 2023

|

Farþegaþota frá Delta Air Lines lenti án nefhjóls á Charlotte/Douglas í Norður-Karólínu í dag.

Airbus gerir samning um þróun á eldsneyti úr etanóli

28. júní 2023

|

Airbus hefur hafið samstarf við fyrirtækið LanzaJet um að hraða þróun og vottun á sjálfbæru eldsneyti sem vonast er til þess að geti leyst af hólmi þörf fyrir hefðbundið þotueldsneyti á næstu árum.

Skortur á flugumferðarstjórum vestanhafs veldur áhyggjum

28. júní 2023

|

Eftirlitsmaður samgönguráðuneytis Bandaríkjanna hefur gefið út skýrslu þar sem fram kemur að skortur á flugumferðarstjórum á vegum bandarískra flugmálayfirvalda (FAA) sé áhyggjuefni sem þarf að taka

Pólsk farþegaþota flaug óvart inn í úkraínska lofthelgi

26. júní 2023

|

Pólsk farþegaþota frá flugfélaginu Enter Air fór óvart inn í úkraínska lofthelgi um helgina þegar flugmenn vélarinnar voru að sneiða hjá þrumuveðri.

Vinna að því að stytta biðtíma fyrir vottanir og skráningar

23. júní 2023

|

Bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) ætla sér að stytta biðtíma eftir skráningum flugvéla og útgáfu vottanna með því að einfalda ferlið og ná með því niður þeirri bið sem viðgengist hefur.

Fækka fraktþotum enn frekar vegna dvínandi eftirspurnar

23. júní 2023

|

Vöruflutningarisinn FexEx ætlar að kyrrsetja enn fleiri fraktflugvélar sökum tapreksturs auk þess sem rekstrartekjur fyrirtækisins hafa dregist töluvert saman auk þess sem að eftirspurn eftir fraktf

 síðustu atvik

  2023-01-17 12:00:00

  • 1 JAN

    United

      - Hjólabúnaður

  • 1 JÚL

    Tajik Air

      - Þrýstingsjöfnun

  • 1 JAN

    SWISS

      - Veðurratsjá

  vinsælast síðustu 7 daga