flugfréttir

FBI hættir leit að flugræningja sem stökk úr Boeing 727 í fallhlíf árið 1971

- D.B. Cooper (Dan Cooper) hefur ekki fundist þrátt fyrir 45 ára leit

13. júlí 2016

|

Frétt skrifuð kl. 20:07

FBI hefur leitað af D.B. Cooper í 45 ár

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefur ákveðið að hætta rannsókn og leit að flugræningjanum Dan Copper sem betur er þekktur sem „DB Cooper“ en hann rændi farþegaþotu af gerðinni Boeing 727 árið 1971 og stökk úr vélinni í fallhlíf með lausnargjald upp á 200 þúsund bandaríkjadala.

Málið er eitt það dularfyllsta sem hefur komið inn á borð bandarísku alríkislögreglunnar en þrátt fyrir viðamikla leit og umfangsmiklar aðgerðir hefur FBI aldrei náð að hafa hendur í hári Coopers og hefur aldrei sést til hans frá því hann stökk úr vélinni í 10.000 fetum í lofthelginni milli Portland í Oregon og Seattle.

FBI segir í yfirlýsingu sinni að stofnunin muni ekki eyða meira púðri í að leita af Cooper þar sem allar vísbendingar sem alríkislögreglunni hefur borist, öll þessi ár, hafa ekki verið til neins og þar að auki er erfitt að fá fleiri ábendingar að máli sem er orðið 45 ára gamalt.

Fjölmargir einstaklingar hafa sl. ár sett sig í samband við FBI með upplýsingar um hvar Cooper kom niður í fallhlíf en þrátt fyrir það hafa bandarísk yfirvöld verið litlu nær þar sem ábendingarnar hafa komið að litlu gagni.

Teikning af Dan Cooper sem lögregla lét gera á áttunda áratugnum

Setti miða í veski flugfreyju með viðvörun um sprengju

Það var um miðjan dag, þann 24. nóvember árið 1971, sem maður kom upp að innritunarborði hjá Northwest Orient Airlines á flugvellinum í Portland og keypti flugmiða aðra leiðina til Seattle en hann sagðist heita Dan Cooper.

Cooper fór um borð í Boeing 727 þotu og settist í sætti 18C þar sem hann kveikti sér í vindlingi og pantaði borboun og sódavatn en farþegar um borð lýstu flugræningjanum sem venjulegum manni á miðjum fimmtugsaldri sem var svartklæddur í jakkaföt og með skjalatösku.

Skömmu eftir flugtak gekk Cooper aftast í vélina þar sem flugfreyjan Florance Shaffner sat í sæti sínu. Hann setti miða í veski hennar sem hún í fyrstu hélt að um símanúmer hans væri að ræða en hann sagði henni að skoða miðann betur og tilkynnti henni að hann væri með sprengju - Á miðanum stóð orðrétt á ensku í hástöfum: „I HAVE A BOMB. I WILL USE IT IF NECESSARY. I WANT YOU TO SIT NEXT TO ME. YOU ARE BEING HIJACKED“.

Hann bað Florance um að setjast við hlið sér í sætið sitt sem hún gerði en hún bað Cooper um að fá að sjá sprengjuna. Cooper opnaði skjalatösku sína en þó aðeins þannig það kæmi smá rifa og sá hún glitta í sex, sívalningslaga hólka sem leit út fyrir að vera sprengja.

Hann lokaði skjalatösku sinni og skrifaði niður á miða þær kröfur sem hann gerði sem voru á 200.000 dalir í reiðufé, sem samsvarar 142 milljónum króna á núverandi gengi, fallhlíf, auk þess sem hann krafðist þess að vélin yrði fyllt af eldsneyti við lendingu í Seattle þar sem krafa hans var að vélin myndi fljúga með hann áfram.

Flugfreyjan, Florance Shaffner, sem Coopper
talaði fyrst við og lét miða í veski hennar sem á
stóð að hann væri með sprengju

Cooper afhenti Florance miðann og bað hann hana um að kom þessum skilaboðum til flugstjórans. „No funny business“, sagði hann við hana áður en hún gekk að stjórnklefanum.

William Scott, flugstjóri, hafði samband við Seattle-Tacoma flugvöllinn sem gerðu yfirvöldum viðvart sem létu lögregluna í Seattle vita en flugstjórinn tilkynnti farþegum að búast mætti við smá töfum eftir lendingu vegna tæknilegra vandamála.

Florance snéri við aftur í vélina og tók eftir að Cooper hafði fært sig í gluggasætið sem var laust og sett á sig sólgleraugu þar sem hann sat rólegur.

Krafðist þess að vélin myndi fljúga mjög hægt til Mexíkó í 10.000 feta hæð

Donald Nyrop, forstjóri Northwest Orient Airlines, samþykkti að greiða Cooper lausnargjaldið en vélin hringsólaði í tvær klukkustundir yfir Puget Sound svæðinu við Seattle til að gefa lögreglunni og FBI tíma til að sækja fallhlíf og lausnarféð sem var fengið úr nokkrum mismunandi bönkum.

Flugfreyjan, Florance Shaffner, sagði að Cooper hefði verið mjög geðþekkur, venjulegur og kurteis í fasi og hefði alls ekki litið út eins og „hættulegur glæpamaður“.

FBI tók saman lausnargjaldið sem voru 10 þúsund tuttugu dollara seðlar en vélin lenti í Seattle klukkan 17:39 og var farið með lausnargjaldið um borð inn um afturdyrnar undir stéli vélarinnar auk fallhlífa sem voru fengnar frá fallhlífaskóla í Seattle.

Eftir að Cooper hafði fengið sitt lét hann alla farþegana lausa sem fóru frá borði en á meðan verið var að fylla eldsneyti á vélina lét hann flugmennina vita hvert hann vildi fljúga.

Cooper krafðist þess að vélin myndi fljúga með hann til Mexíkó og fór hann fram á að vélinni yrði flogið eins hægt og mögulegt væri en samt án þess að hún myndi „stalla“ og ekki hærra en í 10.000 feta hæð.

James B. Comey hjá FBI sem tilkynnti í dag að leitinni hefur formlega verið hætt

Þá fór hann einnig fram á að hjólastellin yrðu ekki sett upp eftir flugtak og þá fór hann fram á að flappsar yrðu stilltir á 15 gráður og að farþegarýmið yrði ekki þrýstingsjafnað.

William Rataczak, aðstoðarflugmaður, gerði Cooper grein fyrir því að m.a.v. flugleiðina frá Seattle til Mexíkó þá væri nauðsynlegt að stoppa á leiðinni til að taka aftur eldsneyti og var fallist á að það yrði gert í Reno í Nevada.

Þá fór Cooper einnig fram á að vélin færi í loftið með afturdyrnar opnar og stiginn yrði settur niður. Stjórnstöð Northwest Orient Airlines sagði að það væri ekki öruggt að fara í loftið með dyrnar opnar en Cooper ákvað að vera ekki að þræta um það frekar.

Vélin fór aftur á loft frá Seattle eftir tveggja tíma viðdvöl með aðeins Cooper um borð, eina flugfreyju, Rataczak aðstoðarflugmann og H.E. Anderson, flugvirkja en skömmu eftir flugtak sendi flugherinn af stað tvær F-106 orrustuþotur til að fylgja vélinni eftir án þess að Cooper tæki eftir því.

Boeing 727 vélin á flugvellinum í Seattle eftir að hún lenti eftir flugið frá Portland

Eftir flugtak bað Cooper flugfreyjuna um að fara fram í stjórnklefann og loka dyrunum og vera það með áhöfninni sem hún gerði en rétt áður en þær lokuðust tók hún eftir því að Cooper var að binda eitthvað utan um mittið sitt.

Nokkrum mínútum síðar kom upp viðvörunarljós í stjórnklefanum um að stiginn hefði verið virkjaður og settur niður og þá urðu flugmennirnir varir við breytingu á loftþrýstingi í vélinni sem gaf til kynna að Cooper hefði opnar hlerann undir stélinu.

Enginn Cooper í flugvélinni eftir lendingu

Klukkan 20:13 breyttist halli vélarinnar það mikið að flugmennirnir þurftu að trimma vélina. Flugmennirnir ákváðu að lenda á flugvellinum í Reno eins og samið var um og lenti vélin með hlerann opinn.

Eftir að vélin lenti var hún umkringd af FBI, lögreglu, sérsveitarmönnum og hermönnum en er þeir fóru um borð kom í ljós að Cooper var ekki lengur í flugvélinni.

Leit hófs þegar í stað á stóru svæði í Oregon en erfitt var að gera sér grein fyrir nákvæmu leitarsvæði þar sem hin minnsta breyting á flughraða vélarinnar leiddi af sér gríðarlega stórt svæði þegar allar tölur voru teknar inn í reikninginn auk þess sem ekki var vitað hvenær hann opnaði fallhlífina eftir að hafa verið í lausu lofti frá því hann stökk frá borði og þá var erfitt að gera sér grein fyrir hversu langt hann hefði getað svifið með vindum.

Allir farþegarnir, áhöfnin og fólk sem var á flugvellinum í Portland, var yfirheyrt og allir þeir sem grunaðir voru um að hafa séð eða talað við Cooper en án árangurs.

Herflugmennirnir sem veittu vélinni eftirför urðu aldrei varir við að hafa séð neinn stökkva úr vélinni enda var komið myrkur auk þess sem Cooper var svartklæddur frá toppi til táar.

Flugmiðinn sem Cooper keypti við innritun Northwest Orient Airlines á flugvellinum í Portland

Sérstök tilraunaflugvél flaug sama flug og Boeing 727 vélin til að líkja eftir atburðinum í von um að fá nákvæmari lendingastað en það bar þó engan árangur en síðar var áætlað að Cooper hefði stokkið úr vélinni kl. 20:13 og sennilega lent nálægt Merwin-vatni við bæinn Ariel í Washington.

Lögreglan gerði húsleit í öllum bænum og öðrum svæðum auk þess sem leit fór fram í vatninu og þá voru sendar flugvélar til að leita meðfram allri flugleiðinni sem Boeing 727 vélin flaug eftir að hún yfirgaf Seattle en án árangurs.

Einhver hluti af lausnargjaldinu fannst þó árið 1980 en það var 8 ára gamall drengur, Brian Ingram að nafni, sem var í fríi með fjölskyldu sinni við Coloumbia-ánna, um 32 km vestur af bænum Arial, sem fann þrjú peningabúnnt og reyndust seðlarnir í sömu röð og þegar þeir voru afhentar Cooper í Seattle fyrir 9 árum síðan.

Aðeins var þó um að ræða 5,800 dollara eða sem samsvarar 2,9% af allri upphæðinni sem Cooper fékk í lausnargjald.

Þau fáu sönnunargögn sem FBI hefur undir höndum verður haldið til haga í „sögulegum tilgangi“ að sögn bandarísku alríkislögreglunnar.

Hluti af þeim peningaseðlum sem 8 ára drengur fann við árbakka í fríi með fjölskyldu sinni árið 1980

FBI biður samt sem áður þá aðila, sem hafa einhverjar upplýsingar um afdrif fallhlífarinnar eða lausnarfésins, að gefa sig fram en gögnin verða gerð aðgengileg fyrir einkarekna rannsóknaraðila sem er frjálst að taka málið að sér.

Í kjölfar atviksins fór FAA fram á að búnaður yrði settur á Boeing 727 vélar sem kæmi í veg fyrir að hægt væri að opna afturstigadyrnar á flugi en búnaðurinn fékk viðurnefndið "The D.B. Cooper switch" í höfuðið á flugræningjanum en búnaðinn var einnig að finna á einhverjum DC-9 vélum.

Stiginn upp í Boeing 727 vélina sem var rænt af D.B. Cooper

Málið þótti það dularfullt og undarlegt að aldrei hefði tangur né tetur sést af flugræntingjanum að samsæriskenningar fóru á kreik um að Dan Cooper hafði aldrei verið til og að um viðamikið samsæri væri að ræða sem hefði verið skipulagt af áhöfninni og fleiri aðilum.

Samt sem áður þótti mjög ólíklegt að Dan Cooper hefði ekki verið til þar sem allar flugfreyjurnar þrjár, sem voru um borð í vélinni, lýstu Cooper mjög nákvæmlega í aðskildum yfirheyrslum og þótti ógjörningur að þær hefðu getað sagt svo nákvæmlega frá flugræningjanum án þess að mistakast þar sem þær voru ekki látnar hittast á meðan þær voru yfirheyrðar.

Þá hefði verið útilokað að Dan Cooper hefði ekki verið um borð í vélinni þar sem það voru gefnir út 36 flugmiðar fyrir þá 36 farþega sem voru um borð en Cooper var sá þrítugasti og sjöundi og hefði það ekki farið framhjá áhöfninni við talningu.

Leitin að D.B. Cooper var mjög umfangsmikil en 40 sérfræðingar hjá bandarísku alríkislögreglunni rannsökuðu málið á sínum tíma og tugi FBI lögreglumanna, sem voru komnir á eftirlaun, héldu áfram að rannsaka afdrif flugræningjans þrátt fyrir að þeir störfuðu ekki lengur hjá stofnuninni.

Frá vinstri: William Scott flugstjóri, Bill Rataczak aðstoðarflugmaður, Tina Mucklow flugfreyja og Harold Anderson, flugvirki







  fréttir af handahófi

  Nýjustu flugfréttirnar

Icelandair staðfestir pöntun í allt að 25 Airbus A321XLR þotur

6. júlí 2023

|

Icelandair hefur staðfest pöntun í allt að 25 Airbus A321XLR þotur en um er að ræða staðfestingu á samkomulagi er flugfélagið gerði í apríl í vor við Airbus.

Hefja rannsókn á endurfjármögnun SAS í kóvidinu

5. júlí 2023

|

Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins ætlar að hefja rannsókn á þeirri endurfjármögnun sem sænska og danska ríkið gerði á rekstri SAS í heimsfaraldrinum og skoða hvort að öllum reglugerðum og lögum ha

Tólf slösuðust um borð eftir mikla ókyrrð

4. júlí 2023

|

Að minnsta kosti 12 manns slösuðust í mikilli ókyrrð um borð í breiðþotu frá Hawaiian Airlines sl. föstudag er þotan var á leið frá Hawaii til Ástralíu.

Air Atlanta Europe leigir tvær 777-300ER til Saudia

4. júlí 2023

|

Air Atlanta Europe tók nýlega í notkun tvær Boeing 777-300ER breiðþotur sem fyrirtækið hefur áframleigt til Saudia.

Þota frá Delta lenti með nefhjólið uppi í Charlotte

28. júní 2023

|

Farþegaþota frá Delta Air Lines lenti án nefhjóls á Charlotte/Douglas í Norður-Karólínu í dag.

Airbus gerir samning um þróun á eldsneyti úr etanóli

28. júní 2023

|

Airbus hefur hafið samstarf við fyrirtækið LanzaJet um að hraða þróun og vottun á sjálfbæru eldsneyti sem vonast er til þess að geti leyst af hólmi þörf fyrir hefðbundið þotueldsneyti á næstu árum.

Skortur á flugumferðarstjórum vestanhafs veldur áhyggjum

28. júní 2023

|

Eftirlitsmaður samgönguráðuneytis Bandaríkjanna hefur gefið út skýrslu þar sem fram kemur að skortur á flugumferðarstjórum á vegum bandarískra flugmálayfirvalda (FAA) sé áhyggjuefni sem þarf að taka

Pólsk farþegaþota flaug óvart inn í úkraínska lofthelgi

26. júní 2023

|

Pólsk farþegaþota frá flugfélaginu Enter Air fór óvart inn í úkraínska lofthelgi um helgina þegar flugmenn vélarinnar voru að sneiða hjá þrumuveðri.

Vinna að því að stytta biðtíma fyrir vottanir og skráningar

23. júní 2023

|

Bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) ætla sér að stytta biðtíma eftir skráningum flugvéla og útgáfu vottanna með því að einfalda ferlið og ná með því niður þeirri bið sem viðgengist hefur.

Fækka fraktþotum enn frekar vegna dvínandi eftirspurnar

23. júní 2023

|

Vöruflutningarisinn FexEx ætlar að kyrrsetja enn fleiri fraktflugvélar sökum tapreksturs auk þess sem rekstrartekjur fyrirtækisins hafa dregist töluvert saman auk þess sem að eftirspurn eftir fraktf

 síðustu atvik

  2023-01-17 12:00:00

  • 1 JAN

    United

      - Hjólabúnaður

  • 1 JÚL

    Tajik Air

      - Þrýstingsjöfnun

  • 1 JAN

    SWISS

      - Veðurratsjá

  vinsælast síðustu 7 daga