flugfréttir

Flugakademía Keilis á fljúgandi ferð

2. janúar 2018

|

Frétt skrifuð kl. 16:01

Um borð í Diamond-kennsluvél Keilis í aðflugi að braut 19 á Reykjavíkurflugvelli

Flugakademía Keilis hóf starfsemi árið 2008 með tvær kennsluvélar og fjóra flugnemendur en núna rétt tæpum tíu árum síðar eru vélarnar orðnar tíu og nemendur yfir þrjú hundruð talsins í tveimur deildum, atvinnuflugmannsnámi og flugvirkjanámi.

Starfsemin fer fram á þremur stöðum á Ásbrú í Reykjanesbæ. Bókleg kennsla fer fram í aðalbyggingu Keilis, verkleg kennsla flugvirkja í Funatröð og verkleg þjálfun flugnema innan haftasvæðis Keflavíkurflugvallar.

Fjölmargir nemendur og mikil atvinnutækifæri

Mikill skortur á flugmönnum á heimsvísu og ör vöxtur íslenskra flugfélaga hafa umbylt starfsumhverfi og möguleikum nýútskrifaðra atvinnuflugnema, en áður fyrr þurftu nemendur oft að bíða í lengri tíma eftir atvinnutilboðum.

Á þriðja hundrað nemendur stunda flugtengt nám í Flugakademíu Keilis. Aukin ásókn hefur verið í námið á undanförnum misserum og er fullbókað í bæði samtvinnað og áfangaskipt atvinnuflugnám í byrjun næsta árs, auk þess sem fullmannað var á flugnámsbraut (cadet nám) Icelandair og Keilis sem hófst í nóvember.   

Nemendur í atvinnuflugmannsnámi hjá Flugakademíu Keilis

Um þriðjungur flugnema koma erlendis frá og skýrist það aðallega af tvennu. Þegar krónan féll varð allt í einu miklu ódýrara fyrir flugnema, t.d. frá hinum norrænu löndunum, að koma til Íslands að læra. Þá eru það ekki síst aðstæður hér á landi sem draga að erlenda nemendur en hér eru engar takmarkanir á flugi og miklu skemmtilegra að lenda á erfiðum flugvöllum eins og t.d. Ísafirði en einhverri flatneskju í Danmörku.

Mikill áhugi á flugnámsbrautum (cadet námi)

Keilir bauð fyrstur skóla á Íslandi upp á samtvinnað atvinnuflugmannsnám árið 2013 þar sem námstíminn er styttri en áður þekkist og flugneminn byrjar á fyrsta degi í þjálfun til atvinnuflugmannsskírteinis í stað þess að ljúka fyrst einkaflugmannsréttindum. Námið er þaulskipulagt, bæði bóklegt og verklegt, er lánshæft frá fyrsta degi og tekur aðeins átján mánuði í fullu námi.  

Flugakademía Keilis festi kaup á fjórum nýjum Diamond DA40 flugvélum til viðbótar og mun kennsluflugfloti skólans því telja 14 flugvélar

Í nóvember síðastliðnum hófu 25 nemendur flugnám við flugnámsbraut Icelandair (cadet nám) í samstarfi við Flugakademíu Keilis. Þetta var í fyrsta skipti sem slíkt nám hefur staðið nemendum til boða á Íslandi en þar aðstoðar Icelandair nemendur við fjármögnun námsins, auk þess sem samþykktir nemendur njóta forgangs til starfa hjá þeim að námi loknu. Gert er ráð fyrir að fyrstu nemendurnir munu geta hafið störf sem atvinnuflugmenn Icelandair árið 2019. 

Mikill áhugi nemenda á þessari námsleið ýtir undir aukið samstarf við fleiri flugfélög um sambærilegt nám á þeirra vegum, og hefur Andrej Vankov verið ráðinn sérstakur verkefnastjóri utan um innleiðingu cadet námsins. Andrej hefur áralanga reynslu af alþjóðlegu samstarfi og þróunarvinnu fyrir flugskóla og mun hann vinna að þróun sérsniðinna flugnámsbrauta fyrir innlend og erlend flugfélög.

Nýstárlegar kennsluvélar og breyttir kennsluhættir

Flugakademía Keilis hefur verið leiðandi aðili í atvinnuflugmannsnámi á Íslandi á undanförnum árum. Nýjar og tæknivæddar kennsluvélar skólans hafa bylt verklegri þjálfun flugnema og með nýjum kennsluháttum hefur bóklegt nám aðlagast þörfum og kröfum nútíma nemenda.

Flugvélafloti Keilis er orðinn einn sá nýstárlegasti og yngsti í Evrópu, en flugvélarnar eru búnar fullkomnum blindflugsbúnaði, stórum tölvuskjám og nútíma flugmælitækjum. Vegna aukinna umsvifa hefur Flugakademía Keilis fest kaup á fjórum nýjum DA40 kennsluflugvélum sem munu bætast við flugflota skólans snemma á árinu 2018.

Eftir kaupin hefur skólinn til umráða alls fjórtán flugvélar frá Diamond flugvélaframleiðandanum: átta DA40 fjögurra sæta vélar, fimm DA20 tveggja sæta vélar og eina tveggja hreyfja DA42 kennsluvél. Fyrirhugað er að fyrstu tvær vélarnar verði afhentar í mars næstkomandi og þær seinni í lok maí.  

Flugvélafloti Keilis er orðinn einn sá nýstárlegasti og yngsti í Evrópu, en flugvélarnar eru búnar fullkomnum blindflugsbúnaði, stórum tölvuskjám og nútíma flugmælitækjum.

En nýjungarnar eru ekki einskorðaðar við verklega þjálfun nemenda, heldur eiga þær sér einnig stað í bóklegri kennslu. Á undanförnum árum hefur Flugakademían breytt kennsluháttum í náminu, þar sem nemendur læra í svokölluðu vendinámi. Þar er hefðbundnu skólastarfi snúið við, nemendur sækja upptökur kennara og kennslustundir rafrænt hvar og hvenær sem þeim hentar, en vinna heimavinnuna í skólastofunni.

Fullt framundan á nýju ári

Flugakademían festi nýverið kaup á fullkomnum flughermi frá Diamond fyrir þjálfun á tveggja hreyfla DA42 flugvél skólans og bætist hann við núverandi Redbird hreyfanlegan flughermi skólans. Nýi flughermirinn verður tekinn í notkun í janúar 2018 og mun auka verulega við þjálfunarmöguleika atvinnuflugnema við skólann þar sem nemendur geta tekið allt að helming flugtíma fyrir fjölhreyflaáritun í herminum.  

Aðflug að Ísafjarðarflugvelli

Skólinn mun á næstu misserum halda áfram að þróa kennsluhættina og mæta enn betur kröfum framtíðarnemenda. Kennslufyrirkomulag skólans hentar vel fyrir nemendur sem koma lengra að og er fyrirhugað að bjóða upp á bóklega kennslu í fjarnámi á næsta ári. Þá er einnig verið að skoða möguleika á því að færa hluta af verklegri þjálfun á aðra flugvelli, en með því væri skólinn að þjónusta betur nemendur af landsbyggðinni.

Skortur á flugkennurum ein helsta ógnin við frekari uppbyggingu skólans, auk þess sem styrking krónunnar hefur dregið úr ásókn erlendra flugnema. Þá þrengja aukin umsvif flugfélaga á Keflavíkurflugvelli að kennsluflugi. En áframhaldandi vöxtur innlendra og erlendra flugfélaga, og mikill yfirvofandi skortur á atvinnuflugmönnum, þýðir að framtíð Flugakademíu Keilis er björt.







  fréttir af handahófi

  Nýjustu flugfréttirnar

Icelandair staðfestir pöntun í allt að 25 Airbus A321XLR þotur

6. júlí 2023

|

Icelandair hefur staðfest pöntun í allt að 25 Airbus A321XLR þotur en um er að ræða staðfestingu á samkomulagi er flugfélagið gerði í apríl í vor við Airbus.

Hefja rannsókn á endurfjármögnun SAS í kóvidinu

5. júlí 2023

|

Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins ætlar að hefja rannsókn á þeirri endurfjármögnun sem sænska og danska ríkið gerði á rekstri SAS í heimsfaraldrinum og skoða hvort að öllum reglugerðum og lögum ha

Tólf slösuðust um borð eftir mikla ókyrrð

4. júlí 2023

|

Að minnsta kosti 12 manns slösuðust í mikilli ókyrrð um borð í breiðþotu frá Hawaiian Airlines sl. föstudag er þotan var á leið frá Hawaii til Ástralíu.

Air Atlanta Europe leigir tvær 777-300ER til Saudia

4. júlí 2023

|

Air Atlanta Europe tók nýlega í notkun tvær Boeing 777-300ER breiðþotur sem fyrirtækið hefur áframleigt til Saudia.

Þota frá Delta lenti með nefhjólið uppi í Charlotte

28. júní 2023

|

Farþegaþota frá Delta Air Lines lenti án nefhjóls á Charlotte/Douglas í Norður-Karólínu í dag.

Airbus gerir samning um þróun á eldsneyti úr etanóli

28. júní 2023

|

Airbus hefur hafið samstarf við fyrirtækið LanzaJet um að hraða þróun og vottun á sjálfbæru eldsneyti sem vonast er til þess að geti leyst af hólmi þörf fyrir hefðbundið þotueldsneyti á næstu árum.

Skortur á flugumferðarstjórum vestanhafs veldur áhyggjum

28. júní 2023

|

Eftirlitsmaður samgönguráðuneytis Bandaríkjanna hefur gefið út skýrslu þar sem fram kemur að skortur á flugumferðarstjórum á vegum bandarískra flugmálayfirvalda (FAA) sé áhyggjuefni sem þarf að taka

Pólsk farþegaþota flaug óvart inn í úkraínska lofthelgi

26. júní 2023

|

Pólsk farþegaþota frá flugfélaginu Enter Air fór óvart inn í úkraínska lofthelgi um helgina þegar flugmenn vélarinnar voru að sneiða hjá þrumuveðri.

Vinna að því að stytta biðtíma fyrir vottanir og skráningar

23. júní 2023

|

Bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) ætla sér að stytta biðtíma eftir skráningum flugvéla og útgáfu vottanna með því að einfalda ferlið og ná með því niður þeirri bið sem viðgengist hefur.

Fækka fraktþotum enn frekar vegna dvínandi eftirspurnar

23. júní 2023

|

Vöruflutningarisinn FexEx ætlar að kyrrsetja enn fleiri fraktflugvélar sökum tapreksturs auk þess sem rekstrartekjur fyrirtækisins hafa dregist töluvert saman auk þess sem að eftirspurn eftir fraktf

 síðustu atvik

  2023-01-17 12:00:00

  • 1 JAN

    United

      - Hjólabúnaður

  • 1 JÚL

    Tajik Air

      - Þrýstingsjöfnun

  • 1 JAN

    SWISS

      - Veðurratsjá

  vinsælast síðustu 7 daga