flugfréttir

WOW air hættir starfsemi

- Saga annars stærsta flugfélags í íslenskri flugsögu á enda

28. mars 2019

|

Frétt skrifuð kl. 11:22

Flugfreyjur WOW air við móttökuathöfn á fyrstu Airbus A330 breiðþotu félagsins

Flugfélagið WOW air hefur hætt starfsemi sinni og hefur öllu flugi á vegum félagsins verið fellt niður.

Þetta kom fram á vefsíðu WOW air og kemur fram á mbl.is að ríkisstjórnin hafi virkjað viðbragðsáætlun vegna gjaldþrots WOW air sem hafði verið starfandi í 7 ár og fjóra mánuði.

WOW air var annað stærsta flugfélagið í íslenskri flugsögu en umsvif þess voru orðin gríðarlega mikil á skömmum tima og var félagið komið með 20 þotur þegar mest var. Þá var WOW air fyrsta félagið til að hefja flugrekstur á Íslandi með Airbus-þotum.

Félagið hafði verið í rekstrarerfiðleikum frá því árið 2018 og sérstaklega skömmu fyrir að farið var út í skuldabréfsútboða sem fram fór er í ljós kom að lausafjárstaða félagsins var farin að veikjast verulega.

Flugfreyjur WOW air um borð í TF-GAY, fyrstu breiðþotu félagsins

Skúli Mogensen stofnaði WOW air í nóvember árið 2011 og var jómfrúarflug félagsins flogið þann 31. maí árið 2012 frá Keflavík til Parísar en áfangastöðum félagsins átti eftir að fjölga mjög hratt í kjölfarið.

Ferskir vindar á íslenskum flugmarkaði

WOW air var kærkominn kostur fyrir landsmenn þar sem félagið bauð upp á lág fargjöld og veitti Icelandair töluverða samkeppni sem neytendur nutu góðs af en einnig bauðst erlendum farþegum að ferðast fyrir lægra verð bæði til Íslands og einnig áfram yfir hafið.

Félagið hóf rekstur með tvær Airbus A320 þotur sem þá voru hvítar með fjólubláum merkingum sem nefndust „WOW FORCE ONE“ og “WOW FORCE TWO“ en félagið var fljótt þekkt fyrir líflegt og hresst viðmót, skemmtilegar kynningar á öryggisatriðum um borð og skemmtilega markaðsímynd.

Eitt af fyrsta markaðsefni WOW air árið 2012

Umtalað var meðal starfsmanna hversu góður vinnuandinn var hjá félaginu og voru bæði flugmenn, flugfreyjur og flugþjónar sem dásömuðu starfsumhverfið hjá félaginu sem kom sterkt inn á íslenskan flugmarkað á sama tíma og sprengjan í ferðamannaiðnaðinum var að hefjast hér á landi eftir erfiða tíma í kjölfar bankahrunsins.

Jómfrúarflug WOW air lenti á Charles de Gaulle flugvellinum í París um þrjúleytið þann 31. maí 2012 og var flugið flogið með LY-VEY sem nefnd var WOW FORCE ONE.

Fyrsta áætlunarflug WOW air hefur sig til flugs á leið til Parísar þann 31. maí árið 2012

Framundan tók við verðstríð milli WOW air og Iceland Express sem þá hafði verið á markaðnum í 10 ár en 5 mánuðum eftir jómfrúarflug WOW air keypti félagið allan rekstur Iceland Express og hvarf það félag af flugmarkaðnum.

Þann 29. október 2013 fékk WOW air í hönd sitt eigið flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu sem var sögulegur viðburður þar sem 30 ár voru liðin frá því að gefið var seinast út flugrekstrarleyfi hérlendis til flugfélags sem flýgur áætlunarflug til og frá Íslandi.

WOW air fagnaði því í október 2013 að félagið var formlega orðið
flugfélag með sitt eigið flugrekstrarleyfi

WOW air fékk skráninguna „WW“ og var forskeyti flugnúmeranna því ekki lengur „X9“ og með því var félagið formlega orðið flugfélag undir íslensku flaggi.

Fyrsta árið flaug WOW air með 90.000 farþega og fjölgaði þeim upp í 450.000 farþega árið 2013 en þess má geta að árið 2017 voru farþegar með WOW air alls 2.8 milljón talsins sem var 70% af farþegafjölda Icelandair það árið en farþegar Icelandair voru 4 milljónir á því ári.

Árið 2014 var WOW air búið að fjölga þotunum í flotanum úr tveimur í fimm og sama ár var auglýst eftir 28 flugmönnum sem var hornsteinninn að þeim öra vexti sem var í vændum.

Flugflotinn stækkaði ört með skemmtilegum skráningarnöfnum

Í byrjun árs 2015 bættust í hópinn fyrstu Airbus A321 þoturnar, TF-MOM og TF-DAD, en Airbus A321 átti eftir að verða aðalflugvélategund WOW air næstu árin sem félagið notaði bæði í Evrópu- og Ameríkuflug.

Árið 2016 var flugfloti WOW air komin upp í ellefu þotur og starfsmenn félagsins orðnir 600 talsins

TF-MOM og TF-DAD var einnig upphafið af skemmtilegu vali á skráningu sem félagið var þekkt fyrir en næstu þotur sem félagið tók við komu allar með skráningar sem vitnuðu í fjölskyldumeðlimi.

Á eftir kom Krakkinn (TF-KID), Amman (TF-GMA), Afinn (TF-GPA), Sonurinn (TF-SON) og síðar komu einnig Hundurinn (TF-DOG), Kötturinn (TF-CAT) og dóttirinn (TF-DTR). Meðal annara vélar í flota WOW air voru PRO, SKY, GAY, NEO, JOY, NOW og WIN.

Fyrsta íslenska flugfélagið til að fá afhenta nýja breiðþotu frá framleiðanda

WOW air fagnaði fjögurra afmæli félagsins þann 1. júní árið 2016 með því að taka við fyrstu breiðþotu félagsins sem var af gerðinni Airbus A330-300 en þetta var í fyrsta sinn í íslenskri flugsögu sem flugfélag hér á landi fékk nýja breiðþotu afhenta frá verksmiðjum.

Í lok maí hélt WOW air upp á 4 ára afmæli félagsins og fékk félagið í sömu vikunni sína fyrstu breiðþotu afhenta

Fyrsta A330 breiðþotan var EC-MIO en með tilkomu breiðþotnanna byrjaði WOW air að herja á nýja markaði með langflugi til áfangastaða á borð við Los Angeles og San Francisco.

Næst fór flugfloti WOW air að stækka á hraða sem ekki hafði sést áður í fluginu á Íslandi en árið 2014 var þotunum fjölgað úr tvær í fimm Airbus-þotur og auglýsti félagið eftir 28 flugmönnum fyrir árslok í tengslum við aukin umsvif.

Árið 2017 auglýsti WOW air eftir 28 flugmönnum til starfa

Árið 2018 var ár erfiðleika í rekstri WOW air í kjölfar ársins á undan er velgengni félagsins hafði náð hámarki með metfjölda áfangastaða en í ágúst 2017 hafði félagið tilkynnt fimm nýja áfangastaði á einu bretti í Norður-Ameríku sem voru St. Louis, Pittsburgh, Cincinnati, Cleveland og Detroit en flug til fjögurra þeirra hófst vorið 2018.

Uppgangur og erfiðleikar á sama ári

Árið 2017 var ekki nægur fjöldi flugmanna á Íslandi til þess að verða við eftirspurn WOW air eftir nýjum flugmönnum vegna aukinna umsvifa og var helmingur flugmanna hjá WOW air árið 2017 ráðnir erlendis frá.

Fljótlega fór að gæta neikvæðrar afkomu hjá WOW air árið 2017 en það árið nam taprekstur félagsins 2,4 milljörðum króna samanborið við 4,3 milljarða hagnaðs árið 2016 en tapið átti eftir að tífaldast árið 2018 þegar félagið tapaði 22 milljörðum króna.

WOW air fór að fækka áfangastöðunum í byrjun október 2018 og var ákveðið að hætta að fljúga til Stokkhólms, San Francisco og Edinborgar sem var hluti af hagræðingu auk þess sem tíu starfsmönnum var sagt upp. Þá var tilkynnt sama dag að afhendingum á tveimur Airbus A330neo þotum hefði verið seinkað.

TF-GAY, Airbus A330 breiðþota WOW air á flugvellinum í San Francisco

WOW air tilkynnti að hækkandi verð á olíu væri meginástæða versnandi afkomu félagsins þar sem þotueldsneyti hafði hækkað um 36% og var ákveðið að leita eftir auknu fjármagni til að tryggja rekstur félagsins í ágúst í fyrra og var ráðist í skuldafjárútboðs til evrópskra fjárfesta.

Þremur mánuðum síðar, eða í nóvember í fyrra, var tilkynnt að Icelandair Group hefði gert kaupsamning á öllum hlut í WOW air með fyrirvara um samþykki frá hluthöfum í Icelandair Group og frá Samkeppniseftirlitinu en fyrir lok nóvember var ákveðið að falla frá kaupsamningnum þar sem í ljós kom að rekstrarbati félagsins þyrfti að vera 31 milljarði krónum meiri svo grundvöllur væri fyrir yfirtöku.

Skúli Mogensen, stofnandi og eigandi WOW air, kynnir gestum og blaðamönnum fyrir fyrstu Airbus A330 breiðþotunni í maí árið 2016

Viðræður sem náðu ekki alla leið

Framtíð WOW air virtist hanga á bláþræði þann 29. nóvember og ákvað fyrirtækið Airport Associates að segja upp 237 starfsmönnum vegna óvissunar varðandi WOW air en að kvöldi sama dags bárust fréttir af því að bandaríska fjárfestingarfyrirtækið Indigo Partners hefði fallist á að fjárfesta í WOW air og var um samkomulag til bráðabirgða að ræða.

Samstöðumynd sem fjölmargir settu á Fésbókarsíður sínar í gær til að lýsa yfir stuðningi við WOW air

Indigo Partners er bandarískt fyrirtæki sem hefur stofnað nokkur lágfargjaldaflugfélög í heiminum en fyrirtækið lagði inn til Airbus stærstu flugvélapöntun sem gerð hefur verið í sögu flugsins í nóvember í fyrra er fyrirtækið pantaði 430 þotur á einu bretti.

Indigo Partners hafði sett fram skilmála um þær breytingar sem yrðu að eiga sér stað á rekstri WOW air svo að yfirtakan og fjárfestingin gæti náð fram að ganga en kröfurnar voru meðal annars að félagið myndi losa sig við breiðþoturnar, skera niður flugflotann og fækka áfangastöðunum.

Þann 21. mars sl. var tilkynnt að Indigo Partners hefði hætt við öll áform sín um að fjárfesta í WOW air og hófust viðræður WOW air og Icelandair Group að nýju.

Að morgni fimmtudagsins 28. mars var tilkynnt að félagið hefði hætt starfsemi sinni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Skúla Mogensen, forstjóra félagsins og stjórn félagsins, til þess að bjarga rekstri félagsins og koma því aftur á réttan kjöl.







  fréttir af handahófi

  Nýjustu flugfréttirnar

Icelandair staðfestir pöntun í allt að 25 Airbus A321XLR þotur

6. júlí 2023

|

Icelandair hefur staðfest pöntun í allt að 25 Airbus A321XLR þotur en um er að ræða staðfestingu á samkomulagi er flugfélagið gerði í apríl í vor við Airbus.

Hefja rannsókn á endurfjármögnun SAS í kóvidinu

5. júlí 2023

|

Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins ætlar að hefja rannsókn á þeirri endurfjármögnun sem sænska og danska ríkið gerði á rekstri SAS í heimsfaraldrinum og skoða hvort að öllum reglugerðum og lögum ha

Tólf slösuðust um borð eftir mikla ókyrrð

4. júlí 2023

|

Að minnsta kosti 12 manns slösuðust í mikilli ókyrrð um borð í breiðþotu frá Hawaiian Airlines sl. föstudag er þotan var á leið frá Hawaii til Ástralíu.

Air Atlanta Europe leigir tvær 777-300ER til Saudia

4. júlí 2023

|

Air Atlanta Europe tók nýlega í notkun tvær Boeing 777-300ER breiðþotur sem fyrirtækið hefur áframleigt til Saudia.

Þota frá Delta lenti með nefhjólið uppi í Charlotte

28. júní 2023

|

Farþegaþota frá Delta Air Lines lenti án nefhjóls á Charlotte/Douglas í Norður-Karólínu í dag.

Airbus gerir samning um þróun á eldsneyti úr etanóli

28. júní 2023

|

Airbus hefur hafið samstarf við fyrirtækið LanzaJet um að hraða þróun og vottun á sjálfbæru eldsneyti sem vonast er til þess að geti leyst af hólmi þörf fyrir hefðbundið þotueldsneyti á næstu árum.

Skortur á flugumferðarstjórum vestanhafs veldur áhyggjum

28. júní 2023

|

Eftirlitsmaður samgönguráðuneytis Bandaríkjanna hefur gefið út skýrslu þar sem fram kemur að skortur á flugumferðarstjórum á vegum bandarískra flugmálayfirvalda (FAA) sé áhyggjuefni sem þarf að taka

Pólsk farþegaþota flaug óvart inn í úkraínska lofthelgi

26. júní 2023

|

Pólsk farþegaþota frá flugfélaginu Enter Air fór óvart inn í úkraínska lofthelgi um helgina þegar flugmenn vélarinnar voru að sneiða hjá þrumuveðri.

Vinna að því að stytta biðtíma fyrir vottanir og skráningar

23. júní 2023

|

Bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) ætla sér að stytta biðtíma eftir skráningum flugvéla og útgáfu vottanna með því að einfalda ferlið og ná með því niður þeirri bið sem viðgengist hefur.

Fækka fraktþotum enn frekar vegna dvínandi eftirspurnar

23. júní 2023

|

Vöruflutningarisinn FexEx ætlar að kyrrsetja enn fleiri fraktflugvélar sökum tapreksturs auk þess sem rekstrartekjur fyrirtækisins hafa dregist töluvert saman auk þess sem að eftirspurn eftir fraktf

 síðustu atvik

  2023-01-17 12:00:00

  • 1 JAN

    United

      - Hjólabúnaður

  • 1 JÚL

    Tajik Air

      - Þrýstingsjöfnun

  • 1 JAN

    SWISS

      - Veðurratsjá

  vinsælast síðustu 7 daga